11. desember 2023

Takmarkanir á neyðaraðstoð á Gaza er dauðadómur yfir börnum

 „Gaza er orðið að hættulegasta stað í heimi til þess að vera barn. Fjöldi barna særast eða tapa lífi sínu daglega og heilu hverfin þar sem börn léku sér og gengu í skóla eru nú ekkert nema rústir einar,“ sagði Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur vakið athygli á hræðilega ástandinu sem nú ríkir á Gaza þar sem börn hafa ýmist misst útlimi sína, orðið fyrir þriðja stigs bruna eða látið lífið. Börn á Gaza eru skelfingu lostin yfir því ofbeldi sem umlykur þau og heldur áfram dag eftir dag.

„Hátt í ein milljón barna hefur neyðst til þess að flýja heimili sín og er þeim nú ýtt lengra og lengra suður á Gaza á pínulítið svæði sem er án vatns, matar og verndar. Þetta eykur líkur á að börn fái ýmiskonar sjúkdóma. Líf barna á Gaza er því ekki aðeins ógnað af ofbeldi heldur einnig vegna vökvaskorts, vannæringu og sjúkdóma,“ sagði Khodr.

„Takmarkanir sem settar hafa verið á afhendingu neyðaraðstoðar á Gaza er einnig dauðadómur yfir börnum. Magn neyðaraðstoðar sem flutt er inn á svæðið er afar takmarkað og þar með hvergi fullnægjandi miðað við þá gífurlegu þörf sem ríkir á svæðinu. Dreifing hjálpargagna er einnig sífelld áskorun vegna sprengjuárása og eldsneytisskorts. Mannúðarkerfið er að hrynja, sérstaklega vegna harðari átaka nú eftir að vopnahléinu lauk. Íbúar lifa í örvæntingu daglega,“ sagði Khodr.

Khodr ítrekaði hversu nauðsynlegt það er að koma á tafarlausu og langvarandi vopnahléi til þess að binda enda á dráp á börnum og fjölskyldum á Gaza. Khodr sagði það vera einu leiðina til þess að vernda óbreytta borgara og einu leiðina til þess að veita bráðnauðsynlega mannúðaraðstoð.

„Mannúðaraðstoð þarf að vera tryggð inni á Gaza til að koma í veg fyrir frekari þjáningar. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og önnur mannúðarsamtök verða að hafa öruggan aðgang að öllum börnum og fjölskyldum þeirra, sama hvar þau eru stödd á Gaza. Heimurinn fylgist með hjálparvana börnum og eyðileggingunni á svæðinu og við verðum að geta brugðist við. Binda verður enda á þjáningarnar strax,“ sagði Khodr að lokum.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn