16. maí 2025

Tugir barna drepin á Gaza síðustu tvo daga: „Þessu verður að linna“

Yfirlýsing Edouard Beigbeder, svæðisstjóra UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku

„Fréttir af því að minnst 45 börn hafi verið drepin á Gaza-svæðinu síðustu tvo daga eru enn ein skelfileg áminning um að börn á Gaza eru þau sem þjást mest. Þau eru neydd til að lifa í hungri dag eftir dag, aðeins til að verða svo fórnarlömb árása.“ Þannig hefst yfirlýsing Edouard Beigbeder, svæðisstjóra UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku í dag.

Síðustu 19 mánuði hefur Gaza verið lífshættuleg fyrir börn þar sem engin örugg svæði er að finna.

„Einungis síðustu tvo mánuði er talið að yfir 950 börn hafi verið drepin í loftárásum um allt Gaza-svæðið,“ segir Beigbeder og heldur áfram:

„Börn á Gaza-svæðinu hafa frá upphafi sætt loftárásum á sama tíma og þau eru svipt nauðsynjum, þjónustu og lífsbjargandi aðstoð. Undanfarnar tvær vikur hefur ástandið versnað enn frekar vegna þeirra hindrana sem beitt hefur verið á mannúðaraðstoð. Ógnir við líf barna felast ekki eingöngu í sprengjum og byssukúlum – heldur einnig í lífsskilyrðum þeirra. Með hverjum degi sem líður án mannúðaraðstoðar eykst hættan á hungursneyð, sjúkdómum og dauða.“

„Réttindi barna á Gaza eru fótum troðin daglega og brýnt er að grípa til tafarlausra aðgerða til að vernda börn gegn alvarlegum og útbreiddum brotum á réttindum þeirra og ógn við líf þeirra. Nú eru liðnir nítján mánuðir frá upphafi þessa stríðsreksturs og börnin hafa mátt þola linnulaust ofbeldi, þar með talið handahófskenndar árásir. Umsátur hefur svipt þau nauðsynlegu mataræði, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu. Þau hafa verið flæmd frá heimilum sínum aftur og aftur, í leit að öryggi og skjóli. Þau hafa mátt þjást á ólýsanlegan hátt. Þessi ör verða með þeim alla ævi.“

„UNICEF hvetur enn og aftur stríðandi aðila til að binda enda á ofbeldið og hvetur ríki sem hafa áhrif á þá aðila til að nýta þau áhrif til að binda enda á átökin. Alþjóðleg mannúðarlög verður að virða af öllum aðilum og leyfa tafarlausa afhendingu mannúðaraðstoðar, frelsun allra gísla og vernd óbreyttra borgara gegn árásum. Þessu daglega ofbeldi og drápum barna verður að linna – tafarlaust.“

Fleiri
fréttir

29. ágúst 2025

Áhyggjufull yfir áhrifum breytinga á stöðu og velferð barna á flótta á Íslandi 
Lesa meira

27. ágúst 2025

500 dagar af umsátri í Al Fasher í Súdan: Líf vannærðra barna hangir á bláþræði
Lesa meira

22. ágúst 2025

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna staðfesta hungursneyð á Gaza í fyrsta sinn
Lesa meira
Fara í fréttasafn