Síðastliðin tvö ár hafa 64 þúsund börn verið drepin eða særð í árásum víðs vegar um Gaza-ströndina. Þar á meðal eru að minnsta kosti þúsund ungbörn. Þá liggur ekki fyrir hversu mörg börn til viðbótar hafa dáið vegna sjúkdóma, veikinda eða eru enn grafin í rústum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu Catherine Russell, framkvæmdastjóra UNICEF í dag.
„Í rúmlega 700 daga hafa börn á Gaza verið drepin, limlest og flæmd á flótta í hrikalegu stríði sem misboðið hefur sameiginlegri mannúð okkar allra. Árásir Ísraels á Gaza-borg og önnur svæði Gaza-strandar halda áfram. Heimsbyggðin getur ekki og má ekki leyfa þessu að halda áfram.“
„Hungursneyð ríkir en í Gaza-borg og breiðist nú út til suðurs þar sem börn búa nú þegar við skelfilegar aðstæður. Vannæringarkrísan, sérstaklega meðal nýbura, er hreinlega sláandi. Mánuðir án fullnægjandi næringar og fæðu hafa valdið varanlegum skaða á þroska og vexti barna.“
„Þörfin fyrir vopnahlé gæti ekki verið meiri. Síðan á laugardag hafa minnst fjórtán börn verið drepin meðan þungar loft- og sprengjuárásir Ísraels halda áfram að dynja á Gaza-borg og öðrum svæðum.“
„UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, fagnar allri viðleitni til að binda enda á stríðið og því að koma á friði á Gaza og heimshlutanum í heild. Hver einasta áætlun og markmið verður að leiða til vopnahlés, lausn gíslanna og öruggrar, hraðrar og óhindraðrar dreifingar og afhendingar mannúðaraðstoðar um allar flutningsleiðir og landamærastöðvar og í þeim mæli sem öll börn og íbúar á Gaza þurfa á að halda.“
„Alþjóðleg mannúðarlög eru skýr: við köllum eftir því að Ísrael tryggi vernd á lífi allra óbreyttra borgara. Það er með öllu bannað að neita borgurum um mannúðaraðstoð. Reglurnar um aðgreiningu, meðalhóf og varúð verða að leiða allar hernaðaraðgerðir, og þeir borgarar sem ekki geta, vilja ekki eða kjósa að yfirgefa átakasvæði, eru og verða alltaf óbreyttir borgarar sem ber að vernda.“
„Hvert barn sem deyr er óbætanlegt tap. Í nafni allra barna á Gaza verður þessu stríði að ljúka – núna.“