20. nóvember 2023

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi krefur stjórnvöld um róttækari aðgerðir í loftslagsmálum

„Tími raunverulegra aðgerða er núna“ – „Þið hafið ekki gert nóg“

„Nú höfum við orðið, og þetta er það sem við viljum,“ segir í ákalli Ungmennaráðs UNICEF á Íslandi til stjórnvalda þar sem þau setja fram kröfur sínar um raunverulegar aðgerðir í loftslagsmálum í tilefni Alþjóðdags barna.  

Í dag, á Alþjóðadegi barna, gefum við börnum orðið á afmælisdegi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og minnum á þau lögfestu réttindi sem Barnasáttmálinn, útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims, tryggir öllum börnum. Í ár vildi Ungmennaráð UNICEF á Íslandi nýta rödd sína í að vekja athygli á loftslagsmálum með ákalli sem ber yfirskriftina „Aðgerðaleysi alla ævi.“ Fulltrúar Ungmennaráðsins hafa undanfarið fengið fræðslu um loftslagsmál hjá fagfólki og grasrótarsamtökum í umhverfismálum og vildu nýta þá þekkingu til að miðla sínum skoðunum á því sem betur má fara til stjórnvalda nær og fjær.  

Þetta er það sem ungmennin vilja: 

  • Við viljum að markmið í loftslagsmálum séu lögfest  
  • 55% markmiða ykkar eru ólögfest - Hvað gerist þegar kemur ný ríkisstjórn? Fara öll þessi markmið út í veður og vind?  
  • Við viljum samræmi milli aðgerða og loforða.  
  • Við viljum róttækari aðgerðir og það strax  
  • Við vitum að breytingar eru erfiðar en lausnirnar eru til staðar. Þið þurfið einfaldlega að nýta þær  
  • Við viljum endurheimta votlendi og birkiskóga - 70% af losun Íslands er votlendi. Við getum endurheimt 50-80% af því til baka þar sem ekki er byggt.  
  • Við viljum jarðefnaeldsneytislaust Ísland 2040 - Lögfestið það og öllum líður betur 
  • Við viljum ná að takmarka hlýnun sjávar við 1,5 gráðu. Sameinuðu þjóðirnar segja að við getum það. Gerum það saman  
  • Við viljum að þið hugsið stórt og ráðist í framkvæmdir á alvöru lausnum – Ekki bara þeim smáu  
  • Við viljum að stjórnvöld tryggi aukna fræðslu til barna um loftslagsmál  

 
Aðildarríkjum ber að hlusta á börn  

Fyrr á þessu ári gaf Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í fyrsta sinn út opinberar leiðbeiningar til aðildarríkja, með vísan í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um að þau verði að tryggja börnum hreint, heilbrigt og sjálfbært umhverfi með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Við það tilefni var bent á að börn um allan heim hafi verið leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, skorað á stjórnvöld og fyrirtæki að grípa til aðgerða til að vernda Jörðina og framtíð þeirra. Á athugasemd nefndarinnar var einnig talað um að börn skuli hafa rödd og sjónarmið þeirra og merkingarbær þátttaka skuli höfð í forgrunni allra ákvarðana stjórnvalda í umhverfismálum.  

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi er skipað þrettán ungmennum sem öll lögðu sitt af mörkum við framleiðslu á meðfylgjandi myndbandi í samstarfi við UNICEF á Íslandi og Muninn kvikmyndagerð.  

 

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi skipa: 

Arnar Snær Snorrason 

Arndís Rut Sigurðardóttir 

Brynjar Bragi Einarsson 

Daníel Örn Gunnarsson 

Elísabet Lára Gunnarsdóttir 

Fjóla Ösp Baldursdóttir 

Rebekka Lind Kristinsdóttir 

Sara Jóhanna Geirsdóttir Waage 

Snæfríður Edda Ragnarsdóttir Thoroddsen 

Sólveig Hjörleifsdóttir 

Vigdís Elísabet Bjarnadóttir 

Ylfa Blöndal Egilsdóttir 

Þröstur Flóki Klemensson 

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn