22. maí 2019

UNICEF boðar byltingu fyrir börn

Ofbeldi er helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Þetta kemur fram í nýjum gögnum um ofbeldi gegn börnum á Íslandi sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kynnir í dag. Gögnin voru unnin af Rannsóknamiðstöðinni Rannsóknir & greining og Stígamótum. Þar kemur meðal annars fram að 16,4% barna á Íslandi verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn.

Ofbeldi er helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Þetta kemur fram í nýjum gögnum um ofbeldi gegn börnum á Íslandi sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kynnir í dag. Gögnin voru unnin af Rannsóknamiðstöðinni Rannsóknir & greining og Stígamótum. Þar kemur meðal annars fram að 16,4% barna á Íslandi verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn.

„Þetta eru rúmlega 13 þúsund börn. Til að setja töluna í samhengi þá er það eins og öll börn í Kópavogi og Akureyri samanlagt,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Í tölunum er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti, en þá væri þessi tala mun hærri. „Þetta er mikið áhyggjuefni. Mörg börn burðast með þennan sársauka fram á fullorðinsár og jafnvel ævina á enda. Afleiðingar þess geta verið grafalvarlegar og jafnvel lífshættulegar,“ segir Bergsteinn.

Átakinu fylgir ákall til almennings um að ganga í breiðfylkingu fólks sem tekur afstöðu gegn ofbeldi á börnum. Hægt er að skrifa undir ákallið hér.

„Ef hinar íbúðirnar í blokkinni gátu heyrt í sjónvarpinu úr minni íbúð, þá gátu þau örugglega heyrt mig gráta þegar mamma sló mig. Þau gátu örugglega heyrt þegar hún öskraði á mig. Þau gátu örugglega heyrt hvað ég grét og var hrædd þetta skipti sem hún sparkaði í mig aftur og aftur á ganginum í sameigninni.“

Þessi lýsing er ein þeirra raunverulegu frásagna sem UNICEF fékk senda í aðdraganda átaksins. Frásagnirnar eiga það sameiginlegt að þolendur voru börn og gerendur nákomnir þeim.

„Þetta er ein birtingarmynd feluleiksins sem einkennir ofbeldi gegn börnum á Íslandi,“ segir Hjördís Eva Þórðardóttir sem stýrir innanlandsstarfi UNICEF á Íslandi. „Of oft veit fólk ekki til hvaða aðgerða er best að taka þegar það hefur áhyggjur af barni. Of oft þora börn ekki að segja frá ofbeldinu eða átta sig ekki á því að þau hafi orðið fyrir ofbeldi,“ segir Hjördís. Hún bendir á að auk þess hafi stjórnvöld hingað til ekki tekið á ofbeldi gegn börnum af nægilegri festu og ekki haft fullnægjandi eftirlit með umfangi vandans.

„Það skortir eftirlit með gögnum og rannsóknir á ofbeldi gegn börnum samhliða forvörnum og fræðslu. Til að stemma stigu við ofbeldinu verða stjórnvöld (ríki og sveitarfélög) að fylgjast með umfangi og birtingarmyndum ofbeldis gegn börnum á Íslandi. Tilkynningar til barnaverndar eru bara toppurinn á ísjakanum,“ segir Hjördís.

Þróun ofbeldis gegn börnum hér á landi og afleiðingar þess er uggvænleg. Í gögnunum kemur meðal annars fram að 9,1% barna í 8. – 10. bekk hafa þegar orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi, ýmist af hálfu fullorðins aðila eða jafnaldra. Sú tala hækkar hratt þegar komið er á framhaldsskólaaldurinn og er þá orðin 16,4%. Í gögnunum má sjá að kynferðisofbeldi gegn drengjum af hálfu fullorðins aðila hefur tvöfaldast á síðustu 6 árum (úr 2% í 4%) og 8% stúlkna hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu jafnaldra. Þegar kemur að heimilisofbeldi segjast 6% drengja verða fyrir líkamlegu ofbeldi á heimili sínu og 5% stúlkna og 6% drengja hafa orðið vitni að líkamlegu ofbeldi á heimili sínu.

„Afleiðingarnar af því að barn verði fyrir heimilisofbeldi eru gífurlegar og hafa rannsóknir sýnt fram á að að það skipti ekki máli hvort barnið verði vitni af ofbeldinu á heimili sínu eða verði fyrir því sjálft, afleiðingarnar eru jafn slæmar fyrir barnið,“ segir Hjördís.

UNICEF á Íslandi hefur lengi bent á að ofbeldi sé ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Árið 2013 gaf UNICEF út skýrsluna Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir. Þar kallaði UNICEF eftir markvissum aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við ofbeldi gegn börnum. Þó margt hafi breyst til betri vegar á síðustu árum vantar enn mikið upp á.

„Við munum nota slagkraftinn sem myndast með átakinu til að þrýsta á stjórnvöld að stofna Ofbeldisvarnarráð og að öll sveitarfélög landsins setji sér skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi. Við hjá UNICEF höfum þrýst á þetta í fjölda ára og nú þurfum við öll að standa saman og stöðva þennan feluleik,“ segir Hjördís.

„Við viljum skapa breiðfylkingu fólks á Íslandi sem heitir því að breyta samfélaginu. Við þurfum byltingu fyrir börnin okkar þegar kemur að ofbeldi. Ofbeldi gegn börnum skal aldrei líðast,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

UNICEF hvetur almenning til að kynna sér málið á unicef.is og skrifa undir ákallið. UNICEF mun senda öllu því hugsjónafólki upplýsingar um hvernig á að bregðast við þegar grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi.

Lykilmyndband átaksins varpar hulunni af feluleikinn sem UNICEF segir ríkja í samfélaginu gagnvart ofbeldi á börnum. Myndbandið verður birt á samfélagsmiðlum UNICEF á Íslandi í dag.

Auglýsingastofan Pipar vann markaðsátakið og myndbandinu er leikstýrt af Hannesi Þór Arasyni hjá SKOT. Allir sem komu að gerð átaksins og myndbandsins gáfu stóran hluta vinnu sinnar. Kvika banki, velunnari heimsforeldra UNICEF, veitti átakinu dýrmætan stuðning við gerð myndbandsins.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn