04. maí 2022

UNICEF tryggir menntun barna nú þegar skólar Úkraínu eru margir rústir einar

Að minnsta kosti einn af hverjum sex skólum sem nýtur stuðnings UNICEF í austurhluta Úkraínu hefur verið skemmdur eða eyðilagður síðan stríðið hófst

Hinn 18 mánaða gamli Sashko flúði Dnipro ásamt móður sinni Katerynu. Hér leikur drengurinn sér á barnvænu svæði UNICEF í Ternopil. Mynd/UNICEF

Að minnsta kosti einn af hverjum sex skólum sem nýtur stuðnings UNICEF í austurhluta Úkraínu hefur verið skemmdur eða eyðilagður síðan stríðið hófst þar í landi. Táknrænt fyrir áhrifin sem átökin hafa á líf og framtíð barna. Það sem hófst sem hefðbundið skólaár, með tilheyrandi vonum og væntingum barna eftir heimsfaraldur COVID-19, er nú orðið að martröð að sögn Murat Sahin, fulltrúa UNICEF í Úkraínu.

„Í staðinn hafa hundruð barna látið lífið og skólaárinu lýkur með lokun skóla vegna stríðsins og eyðileggingu menntastofnana,“ segir Sahin í tilkynningu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Bara í liðinni viku hafa árásir verið gerðar á tvo skóla í Úkraínu. Frá því stríðið hófst í febrúar síðastliðnum hafa hundruð skóla orðið fyrir árásum. Margir þeirra fengu nýtt hlutverk sem upplýsingamiðstöðvar, öruggt skjól, dreifingamiðstöðvar fyrir nauðsynjar eða þeir nýttir í hernaðarlegum tilgangi.

Skilur milli vonar og örvæntingar

Skólar eru nauðsynlegir fyrir börn í neyð. Þeir veita þeim öruggan stað til að vera á, vott af eðlilegu lífi á erfiðum tímum og tryggja að þau gjaldi ekki fyrir þau réttindi sem þau hafa verið svipt í framtíðinni. Menntun getur líka verið lífsnauðsynleg og veitt börnum fræðslu um margvíslegar hættur á stöðum eins og í austurhluta Úkraínu þar sem sprengjur og stríðsleifar frá fyrri tíð liggja víða enn sem hráviði, tengja þau við önnur börn, foreldra þeirra og veita aðgengi að heilbrigðisþjónustu og sálrænum stuðning.

„Það getur skilið milli vonar og örvæntingar hjá milljónum barna að tryggja aðgengi að menntun við aðstæður sem þessar,“ segir Sahin. „Þetta er nauðsynlegt fyrir framtíð þeirra sem og framtíð Úkraínu.“
Þetta er UNICEF að gera til að tryggja rétt barna til náms

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ásamt samstarfsaðilum, vinnur að því að ná til eins margra barna og mögulegt er til að tryggja örugg og viðeigandi námstækifæri fyrir þau. Það felur meðal annars í sér:

  • Fjarkennsluvettvanginn „All Ukraine Online Education Platform“ fyrir nemendur í 5.-11. bekk sem þróað var af mennta- og vísindamálaráðuneytinu með stuðningi UNICEF á meðan á heimsfaraldri COVID-19 stóð til að ná til yfir 80 þúsund nemenda innan Úkraínu.
  • Í tugum neðanjarðarlestarstöðvum í Kharkiv, þar sem börn hafa neyðst til að leita skjóls, hafa sjálfboðaliðar sett upp svæði þar sem kennarar, sálfræðingar og íþróttakennarar virkja börn reglulega.
  • Fræðsluefni á fjarkennsluforritinu Numo, fyrir börn á leikskólaaldri sem stutt er af UNICEF, fær reglulega hundruð þúsunda áhorfenda.
  • Áframhaldandi netherferð til að upplýsa almenning um hættur sprengjuleifa (EORE) sem þróað var af UNICEF og Almannavörnum Úkraínu hefur náð til 8 milljóna notenda.
  • Nær 250 þúsund börn hafa notið góðs af skólagögnum frá UNICEF í skýlum, neðanjarðarlestarstöðvum og öðrum stöðum sem hýsa börn á flótta.
  • Fyrir börn sem flúið hafa Úkraínu styður UNICEF stjórnvöld og sveitarstjórnir á staðnum til að taka á móti þeim börnum inn skólakerfið, auk þess að veita þeim aðgengi að menntun með öðrum leiðum eins og með fjarkennslu.

Hin fjögurra ára gamla Liza leikur við Yuliu móður sína á barnvænu svæði UNICEF við landamæri Rúmeníu og Úkraínu. Mynd/UNICEF

„Þrátt fyrir hrylling stríðsins þá hefur verið lyft grettistaki í að tryggja áframhaldandi nám barna,“ segir Sahin í tilkynningunni. „Þegar öllu er á botninn hvolft þá þarf átökum að linna svo hægt sé að endurreisa kennslustofur og tryggja að skólar verði aftir öruggur og skemmtilegur staður til að læra í“

Börn og skóla ber að vernda með öllum ráðum líkt og kveðið er á um í alþjóðlegum mannúðarlögum. Stríðandi fylkingum ber að forðast það að nota sprengjur í íbúðabyggð og skóla sem skotmörk.
Svona styrkir þú UNICEF

Ef þú vilt leggja þitt af mörkum til að tryggja áframhald á þessu mikilvæga starfi UNICEF vegna stríðsins í Úkraínu, styrktu þá neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi.

Sendu SMS-ið UNICEF í númerið 1900 til að styrkja um 1.900 kr.
Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102060 kt. 481203-2950.
Þá tökum við sömuleiðis við AUR greiðslum í númerið 123-789-6262 eða með því að skrifa @unicef.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn