03. september 2025

UNICEF varar við alvarlegum afleiðingum niðurskurðar á menntun barna

Áætlað er að 6 milljónir fleiri börn verði að óbreyttu af menntun á næsta ári vegna niðurskurðar ríkja til þróunaraðstoðar.

Stöndum vörð um réttindi barna til menntunar. Mynd/ UNICEF/UNI850820/Kruglinski

„Að fjárfesta í menntun barna er ein besta fjárfesting í framtíðinni fyrir alla. Þjóðir standa sig betur þegar börnin þeirra eru menntuð og heilbrigð, og það stuðlar að stöðugri og farsælli heimsbyggð,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í tilkynningu í dag þar sem varað er við alvarlegum afleiðingum alþjóðlegs niðurskurðar til þróunaraðstoðar á menntun barna. Áætlað er að 6 milljónir fleiri börn verði að óbreyttu af menntun á næsta ári.

Fjármögnun til menntaverkefna stendur frammi fyrir 3,2 milljarða dala niðurskurði á næsta ári og UNICEF varar við að þetta muni setja framtíð milljóna barna í hættu.

Samkvæmt greiningu UNICEF er áætlað að opinber þróunaraðstoð (ODA) til menntunar dragist saman um 3,2 milljarða dala á næsta ári, eða sem nemur 24% miðað samanborið við árið 2023. Nærri 80% þessa niðurskurðar má rekja til þriggja gjafaríkja. Slíkur samdráttur myndi hækka fjölda barna utan skóla á heimsvísu úr 272 milljónum í 278 milljónir – sem jafngildir því að tæma öll grunnskólastig í Þýskalandi og á Ítalíu samanlagt.

Atlaga að framtíð barna

„Hver einasti dollari sem skorið er niður um af menntun er ekki bara fjárlagaleg ákvörðun, heldur framtíð barns sem hangir á bláþræði,“ segir Russell í tilkynningu UNICEF. „Menntun, sérstaklega í neyðaraðstæðum, er oft líflína sem tengir börn við þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu, vernd og næringu. Hún veitir líka bestu möguleika barns til að sleppa úr viðjum fátæktar og skapa sér betra líf til frambúðar.“

Samkvæmt greiningunni verður áfallið mest í Vestur- og Mið-Afríku þar sem 1,9 milljónir barna eru í hættu á að missa af námi, en í Miðausturlöndum og Norður-Afríku gæti fjöldi barna utan skóla aukist um 1,4 milljónir, ásamt verulegum afturförum í öllum öðrum heimshlutum.

Greiningin sýnir að 28 lönd muni tapa að minnsta kosti fjórðungi þeirrar menntunaraðstoðar sem þau reiða sig á fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þar á meðal verði Fílabeinsströndin og Malí fyrir mestum áhrifum vegna þess þar sem innritun gæti minnkað um 4%, eða sem nemur 340.000 og 180.000 nemendum í hvoru landi um sig.

Kemur verst niður á grunnmenntun

Gert er ráð fyrir að grunnmenntun verði verst úti á heimsvísu þar sem fjármögnun mun dragast saman um þriðjung vegna niðurskurðar. UNICEF áætlar að með því verði börn af samanlögðum ævitekjum sem nemi 164 milljörðum dala.

Í neyðaraðstæðum, þar sem menntun nær út fyrir námið sjálft og veitir lífsnauðsynlegan stuðning, stöðugleika og tilfinningu um eðlilegt líf fyrir börn sem hafa orðið fyrir áföllum, gæti fjármögnun dregist verulega saman – í sumum tilvikum jafngildir það a.m.k. 10 prósenta niðurskurði á menntunarfjárlögum.

Nauðsynleg þjónusta eins og skólamáltíðir, sem stundum er eina næringarríka máltíð barnsins á dag, stendur frammi fyrir niðurskurði um helming, á sama tíma og stuðningur við menntun stúlkna er einnig í verulegri hættu.

Víðtækur niðurskurður á kerfislegum grunni mun einnig grafa undan getu stjórnvalda til að gera áætlanir byggðar á gögnum, styðja við þróun kennara og fylgjast með námsárangri. Þetta þýðir að jafnvel börn sem halda áfram í skóla gætu fengið lakara nám en ella, þar sem að minnsta kosti 290 milljónir nemenda um allan heim geti orðið fyrir slíkri skerðingu á námsgæðum.

UNICEF hvetur gjafalönd og samstarfsríki til að grípa til aðgerða strax til að vernda menntun með því að:

  • Jafna menntunaraðstoð þannig að hún sé réttlátari og árangursríkari, með að minnsta kosti 50 prósent renna til fátækustu ríkjanna;
  • Tryggja fjármögnun menntunar í neyðaraðstæðum og setja menntun í forgang sem lífsnauðsynlega þjónustu ásamt annarri grunnþjónustu.
  • Beina aðstoð grunnnámi, með áherslu á leik- og grunnskóla þar sem ágóðinn er mestur.
  • Einfalda alþjóðlegt fjármagnskerfi í samræmi við UN80-átakið til að bæta skilvirkni;
  • Auka nýstárlega fjármögnun án þess þó að koma í stað kjarnastyrkja til menntunar.
Fleiri
fréttir

03. september 2025

UNICEF varar við alvarlegum afleiðingum niðurskurðar á menntun barna
Lesa meira

29. ágúst 2025

Áhyggjufull yfir áhrifum breytinga á stöðu og velferð barna á flótta á Íslandi 
Lesa meira

27. ágúst 2025

500 dagar af umsátri í Al Fasher í Súdan: Líf vannærðra barna hangir á bláþræði
Lesa meira
Fara í fréttasafn