20. september 2022

Baráttukonan Vanessa Nakate nýr góðgerðarsendiherra UNICEF

Nakate helgað sig baráttu í loftlagsmálum – Heimsótti Afríkuhorn og sá skelfilegar afleiðingar hamfarahlýnunar á börn

Vanessa Nakate ávarpar fjölmiðla í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Mynd/UNICEF

Hin 25 ára gamla Vanessa Nakate frá Úganda hefur verið skipuð góðgerðarsendiherra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Nakate hefur helgað sig baráttunni gegn loftslagsbreytingum um allan heim.

Hún er nýkomin aftur úr heimsókn með UNICEF til Kenía þar sem hún sá skelfilegar afleiðingar verstu hamfaraþurrka í 40 ár á ríki Afríkuhornsins og kynnti sér þau risavöxnu verkefni sem UNICEF sinnir í að tryggja börnum og fjölskyldum þar lífsbjargandi neyðaraðstoð.

Raddir hinna jaðarsettu heyrist 

„Sem góðgerðarsendiherra UNICEF verður það mitt fyrsta verk að láta raddir barna og hinna jaðarsettu heyrast, þeirra sem of oft eru undanskilin samtalinu um hamfarahlýnun. Þessi mikli heiður sem mér hefur hlotnast gerir mér kleift að hitta börn og ungmenni á þeim stöðum sem verst hafa orðið úti vegna hamfarahlýnunar og stækka þann vettvang sem ég hef til að berjast fyrir réttindum þeirra,“ segir Nakate.

„Í Kenía hitti ég fólk sem sagði mér hvernig loftslagsbreytingar hafa haft áhrif á líf þeirra, hvernig þurrkar síðustu fjögur rigningatímabil hafa hrifsað burt grunnaréttindi barna. Í einu samfélagi sem ég heimsótti hafði ekki fallið rigning í rúm tvö ár. Þetta er meira en bara fæðu- og næringarkrísa, þetta er enn ein hliðarverkunin af versnandi loftslagskrísu.“

Mótmælti með Gretu Thunberg

Nakate hóf baráttu sína í loftslagsmálum í janúar 2019 þegar sótti innblástur í baráttu Gretu Thunberg og hóf að mótmæla á götum Kampala ásamt systkinum sínum og frændsystkinum. Hún hélt því áfram vikulega eftir það og varð þekkt í heimalandinu fyrir loftslagsverkföll sín. Hún komst svo í heimsfréttirnar árið 2020 þegar hún var klippt út af fréttamynd þar sem hún kom fram ásamt Thunberg og öðrum loftlagsaðgerðasinnum– þar sem hún var sú eina sem var dökk á hörund. Atvikið var afar umdeilt en viðbrögð hennar vöktu mikla athygli þar sem hún sagði fjölmiðilinn „ekki aðeins hafa þurrkað út ljósmynd, heldur heila heimsálfu.“

Réttlæti í loftlagsmálum- fyrir alla heimsbyggðina

„Sem ung kona frá Afríku þarf ég að berjast fyrir því að fá áheyrn fjölmiðla og ráðamanna. Og þó ég sé þakklát fyrir þann vettvang sem ég hef nú, þá ætla ég mér að halda áfram að berjast fyrir aðra sem ekki hafa hann. Börnin í framlínu hamfarahlýnunar, eins og þau sem ég hitti í Turkana í Kenía, eru fólkið sem ég mun vinna fyrir í nýju hlutverki mínu hjá UNICEF,“ segir Nakate.

Áhersla Nakate hefur einmitt ávallt verið að tryggja réttlæti í loftlagsmálum og þátttöku allra samfélaga, sérstaklega þeirra sem finna mest fyrir breytingunum. Hún stofnaði Rise Up Movement, vettvang sem lyftir röddum loftlagsaðgerðarsinna frá Afríku sem og verkefni sem miðar að því að koma fyrir sólarrafhlöðum í dreifbýli Úganda. Hún hefur ávarpað þjóðarleiðtoga á COP25 og COP26 loftlagsráðstefnum og prýtt forsíðu tímaritsins TIME fyrir störf sín.

Nakate er nú komin í hóp kraftmikilla kvenna sem undanfarin ár hafa verið skipaðar góðgerðarsendiherrar UNICEF á borð við leikkonurnar Millie Bobby Brown, Priyanka Chopra Jonas, tónlistarkonurnar Katy Perry og Angelique Kidjo og menntabaráttukonuna Muzoon Almellehan.

Fleiri
fréttir

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira

19. apríl 2024

Þrjú börn létust í árásum í Úkraínu
Lesa meira

17. apríl 2024

Börn í Réttindaskólum sýna betri skilning á réttindum sínum og Barnasáttmálanum
Lesa meira
Fara í fréttasafn