21. nóvember 2023

Víða vegið að réttindum barna með alvarlegum hætti  

Þann 19. nóvember var 31 fyrirbura bjargað af Al-Shifa sjúkrahúsinu á norðurhluta Gaza og þau flutt suður í átt að Egyptalandi. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við fjölda annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna komu að þessu átaki, ásamt Rauða hálfmánanum í Palestínu.

Eins og ber að skilja hrakaði líðan barnanna hratt meðan þau voru flutt við hættulegar aðstæður í suðurátt. En þau voru flutt í hitakössum undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna frá Al-Shifa sjúkrahúsinu til Al-Helal Al-Emarati sjúkrahússins í Rafah, í suðurhluta Gaza, þar nú er unnið að því að koma ástandi þeirra í jafnvægi.

UNICEF og samstarfsaðilar vinna að því að auðkenna og skrá börnin og leita að foreldrum og fjölskyldumeðlimum þeirra í þeim tilfellum þar sem það er mögulegt.

Frá því að loftárásir hófust hefur UNICEF útvegað sjúkrahúsum á suður- og miðsvæðum Gaza lækninga- og barnavörur til að styðja um það bil 244 þúsund manns, þar á meðal fyrirbura. Að auki hefur fimm sjúkrahúsum verið útvegað vatn, að lágmarki 3 lítra á mann á dag fyrir um 50 þúsund manns.

Vernda þarf sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og starfsfólk fyrir árásum. Gera verður ráðstafanir til að forða sjúklingum, heilbrigðisstarfsmönnum og óbreyttum borgurum frá því ofbeldi sem nú á sér stað á Gaza. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, heldur áfram að kalla eftir tafarlausu vopnahléi og tryggja að eldsneyti og sjúkrabirgðir berist til sjúkrastofnana á svæðinu.

Eitt af hverjum fimm börnum býr á átakasvæðum eða er á flótta

Ástandið á Gaza er sérstaklega hræðilegt í ljósi brota á flestum grundvallarréttindum barna. Í gær, 20. nóvember var haldið upp á Alþjóðadag barna en sá dagur er einmitt afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  

Með staðfestingu sáttmálans árið 1989 viðurkenndu leiðtogar heimsins að öll börn ættu óafsalanleg réttindi og með staðfestingu sáttmálans hétu stjórnvöld því að tryggja að réttindi barna yrðu vernduð og tryggð um ókomna tíð.

Í ljósi aðstæðna á Gaza er ljóst að enn búa börn í heimi sem er sífellt fjandsamlegri réttindum þeirra. „Hvergi er þetta augljósara en þegar réttindi barna eru brotin í vopnuðum átökum,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastýra UNICEF.  

„Við áætlum að í dag búi um 400 milljónir barna, eða um eitt af hverjum fimm börnum, á átakasvæðum eða á flótta. Mörg eru slösuð, drepin eða beitt kynferðislegu ofbeldi, missa fjölskyldumeðlimi og vini eða neydd til að bera vopn í átökum. Mörg börn hafa neyðst til þess að flýja heimili sín margsinnis og eiga í sífellt meiri hættu á að verða viðskila við fjölskyldur sínar, fá ekki menntun og missa tengsl við samfélög sín.

Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest að yfir 315 þúsund alvarleg mannréttindabrot hafa verið framin á átakasvæðum frá árinu 2005 til 2022. Raunverulegur fjöldi þessa brota er þó líklega mikið hærri.

Réttindum barna ógnað á fjölda máta

Réttindi barna eru einnig í hættu utan átakasvæða, til dæmis vegna fátæktar og ójöfnuðar eða neyðarástands í lýðheilsu og loftslagsmálum.  

„Loftslagsbreytingar eru ein helsta ógn heilsu og velferð barna. Á heimsvísu búa meira en 1 milljarður barna í löndum sem eru í mjög mikilli hættu vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Það þýðir að helmingur barna heimsins gæti orðið fyrir óbætanlegum skaða ef plánetan okkar heldur áfram að hlýna. Börn eru líkleg til þess að missa heimili sín og fá ekki menntun vegna storma, þurrka og loftmengunar. Réttindi barna hafa aldrei verið í jafn mikilli hættu og nú, frá samþykkt Barnasáttmálans fyrir 34 árum,“ segir Russell.

„Þess vegna verðum við að bregðast við. Ég hvet okkur öll, allt frá UNICEF og samstarfsaðilum okkar í barnaréttindasamfélaginu, til ríkisstjórna, borgaralegra samtaka og einkageirans, að vera sterkari baráttumenn og talsmenn réttinda barna. Það þýðir að styðja við Barnasáttmálann, innleiða hann og tryggja eftirfylgni alþjóðlegra staðla í réttindum barna. Það þýðir líka að staðfesta stöðu barna sem sjálfstæða rétthafa og tryggja ábyrgð á brotum á réttindum barna hvar sem þau eiga sér stað,“ segir Russell.

20. nóvember ætti að vera dagur þar sem alþjóðasamfélagið getur fagnað framgangi réttinda barna um heim allan en réttindi barna eiga nú undir högg að sækja. „Við megum ekki láta hugfallast, heldur verða ákveðnari í því að tryggja þau loforð sem Barnasáttmálinn veitir öllum börnum, alls staðar,“ segir Russell að lokum.

Fleiri
fréttir

29. apríl 2024

Bútan fær lof fyrir frábæran árangur í bólusetningum barna
Lesa meira

26. apríl 2024

Að bjarga sex lífum á mínútu í hálfa öld 
Lesa meira

24. apríl 2024

Bólusetningar hafa bjargað 2,500 lífum ung- og smábarna á Íslandi
Lesa meira
Fara í fréttasafn