„Börn um allan heim gjalda nú fyrir niðurskurð ríkja til mannúðaraðstoðar,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Í dag birtist árleg aðgerðaáætlun UNICEF í mannúðarmálum fyrir árið 2026 (e. Humanitarian Action for Children). Í ár er áætlunin ákall til alþjóðasamfélagsins um að standa með börnum og fjárfesta í lífsbjargandi þjónustu við þau.
Aukin átök, vaxandi hungur, alþjóðlegur niðurskurður fjárveitinga og hrun grunnþjónustu eru lykilþættir í fordæmalausri neyð barna heimsins. Í mannúðarákalli UNICEF kemur fram að 7.6 milljarða dali þurfi á næsta ári til að veita 73 milljónum barna lífsbjargandi neyðaraðstoð í 133 ríkjum og landsvæðum á komandi ári.
Börn, skólar og sjúkrahús skotmörk
Víðs vegar um heiminn standa börn frammi fyrir fjölþættum vandamálum og fordæmalausum áskorunum vegna átaka, fólksflótta og efnahagsþrenginga. Átök ýta undir fjöldaflótta sem ógnar öryggi barna enda hafa tilkynningar um alvarleg brot gegn börnum aldrei verið fleiri en á árinu sem er að líða. Ekkert lát er árásum á skóla og sjúkrahús, aukning hefur orðið á kynferðisofbeldi gegn börnum og í mörgum neyðaraðstæðum eru ekki aðeins börnin skotmörk heldur einnig hjálparstarfsfólkið sem reynir að koma þeim til aðstoðar.
Á sama tíma þá hefur verið grafið undan fjárveitingum til mannúðaraðstoðar á heimsvísu á árinu. Mikilvægar styrktarþjóðir hafa ýmist tilkynnt um eða hyggjast skera niður framlög sín með þeim hætti að það hefur þegar takmarkað getu UNICEF til að ná til milljóna barna í bráðri neyð.
Hver mun standa með börnum?
Fyrir UNICEF, sem einungis er rekið fyrir frjáls framlög, þýðir þetta að taka þarf óhugsandi ákvarðanir. Niðurskurður til næringarverkefna gerir það að verkum að fjárskortur nam 72% árið 2025 þannig að skera þurfti niður umfang starfseminnar í 20 forgangsríkjum. Það gerði það m.a. að verkum að markmið UNICEF um að ná til 42 milljóna barna og kvenna með næringarverkefni og –aðstoð á árinu dróst saman í 27 milljónir.
Í menntaverkefnum vantaði 745 milljónir dala upp á sem ógnar aðgengi milljóna barna að menntun, vernd og stöðugleika svo dæmi séu tekin.
Afleiðingar þessa niðurskurðar og sú ógn sem hún hefur í för með sér fyrir börn um allan heim var einmitt ástæða þess að UNICEF á Íslandi, sem og fleiri landsnefndir víða um heim, fóru í kynningarátak til að sporna við þessum niðurskurði. Hér spurðum við landsmenn: Hver mun standa með börnum þegar heimsbyggðin bregst?
200 milljónir barna þurfa mannúðaraðstoð á næsta ári
„Alvarlegur niðurskurður er að setja gríðarlegt álag á lífsnauðsynleg verkefni UNICEF,“ segir Catherine Russell í tilkynningu með mannúðarákalli komandi árs. „Framlínustarfsfólk neyðist til að taka óhugsandi ákvarðanir við þessar aðstæður. Að forgangsraða takmörkuðum hjálpargögnum og þjónustu og gera upp á milli svæða og verkefna. Draga úr tíðni þjónustu eða skala niður verkefni sem börn þurfa á að halda til að lifa af.“
UNICEF varar við því að rúmlega 200 milljónir barna muni þurfa á mannúðaraðstoð að halda árið 2026.
Þrátt fyrir allar þessar áskoranir þá hefur UNICEF unnið hörðum höndum að því að laga starfsemi sína og mannúðaraðstoð að breyttum veruleika. Á sama tíma heldur stofnunin fast í grunngildi sín um réttindi barna og kjarnastarfsemi í mannúðaraðstoð fyrir börn, sem ávallt eru leiðarljós UNICEF, Barnhjálpar Sameinuðu þjóðanna.
Það felur meðal í sér að:
· Setja í forgang lífsbjargandi inngrip sem mest hafa áhrif.
· Styrkja samstarf við ríkisstjórnir og heimafólk.
· Fjárfesta í viðbúnaði, áhættumati og fyrirbyggjandi aðgerðum.
· Byggja og styrkja áfallaþol innviða og samfélaga.
„Þessi fjármögnunarkrísa endurspeglar því miður ekki að þörfin hafi minnkað, heldur aðeins vaxandi bil á milli þjáningar og tiltækra úrræða. Á meðan UNICEF vinnur að því að aðlaga sig nýjum veruleika gjalda börn um allan heim nú fyrir niðurskurð ríkja til mannúðaraðstoðar,“ segir Russell.
UNICEF hvetur jafnt ríkisstjórnir sem aðra til að auka fjárfestingu sína í þágu barna.
Ísland til fyrirmyndar
Á sama tíma önnur ríki hafa ýmist dregið úr eða hyggjast draga úr framlögum sínum til alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar hefur íslenska ríkið farið fram með góðu fordæmi á undanförnum misserum. Líkt og UNICEF á Íslandi hefur fjallað um hefur íslenska ríkið aukið við kjarnaframlög sín til UNICEF. Þá á Ísland líka flesta Heimsforeldra miðað við höfðatölu sem styrkja UNICEF með mánaðarlegum framlögum og þá er framlag landsnefndar UNICEF á Íslandi hlutfallslega hæst allra landsnefnda í heiminum.




