13. ágúst 2025

Íslandi hrósað í hástert fyrir stuðning við Jafnréttissjóð UNICEF

„Ísland er að hjálpa til við að skapa raunverulegar framfarir og árangur fyrir stúlkur og sendir um leið skýr skilaboð um hvað það er sem skiptir mestu máli.“

Jafnrétti –fyrir öll börn. Mynd: UNICEF/UNI838735/Ackon

Ísland og íslensk stjórnvöld fá mikið hrós í ársskýrslu Jafnréttissjóðs UNICEF (e. UNICEF‘s Global Gender Equality Thematic Fund) sem komin er út. Er íslensku þjóðinni hrósað fyrir að vera brautryðjendur og í forystuhlutverki við að stuðla að jafnrétti kynjanna í heiminum með fjárfestingu sinni í valdeflandi verkefnum UNICEF í þágu stúlkna.

Utanríkisráðuneytið og UNICEF undirrituðu í maí síðastliðnum samning um 50 milljóna króna framlag á ári frá íslenskum stjórnvöldum í Jafnréttissjóð UNICEF næstu fjögur árin. Ísland er eitt af fjórum ríkjum sem styrkja jafnréttissjóðinn og var í hópi fyrstu ríkja heims til að styrkja hann. Þessi stuðningur hefur ávallt verið mikils metinn hjá UNICEF á heimsvísu.

Í sérstökum kafla skýrslunnar þar sem fjallað er um framlag Íslands segir:

„UNICEF kann afar vel að meta það brautryðjenda- og leiðtogahlutverk sem Ísland hefur sýnt við að styðja framgöngu jafnréttismála í gegnum fjárfestingu sína í verkefnum sjóðsins. Ísland var meðal fyrstu opinberu styrktaraðila hins alþjóðlega Jafnréttissjóðs UNICEF og hvetjandi stuðningur íslenska ríkisins- sem nú hefur verið tvöfaldaður í 50 milljónir króna á ári til ársins 2028- er að umbreyta tækifærum stúlkna um allan heim með því að samþætta jafnréttisaðgerðir í menntun, vernd og leiðtogakerfum.“

Í skýrslunni er einnig vitnað í Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytið þar sem hann segir íslensk stjórnvöld stolt af því að taka þátt í þessum mikilvægu verkefnum. Að jafnrétti kynjanna og valdefling og menntun stúlkna séu lykilatriði í þróunarsamvinnu og framþróun samfélaga.

UNICEF segir í skýrslunni að fjárfesting Ísland flýti fyrir verkefnum sem hafi mikil áhrif á heimsvísu við að ná til ungs fólks og stúlkna í raunvísindum, tækni, forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, starfs- og leiðtogaþjálfun fyrir stúlkur á flótta, ásamt því að stuðla að jafnréttismiðaðri lagasetningu, stefnumótun og styrkingu innviða vatns-, hreinlætis- og heilbrigðisverkefna (WASH) svo fátt eitt sé nefnt.

„Með því að styrkja lykilkerfi sem takast á við undirliggjandi orsakir kynjahalla er fjárfesting Íslands að skapa keðjuverkandi áhrif sem umbreyta heilu samfélögunum – og tryggja að stúlkur dagsins í dag verði leiðtogar framtíðarinnar,“ segir í skýrslunni.

Kitty van der Heijden, aðstoðarframkvæmdastjóri UNICEF, hrósar Íslandi og stjórnvöldum hér á landi loks í hástert.

„Á tímum víðtæks niðurskurðar til þróunaraðstoðar á heimsvísu er Ísland á sama tíma að sýna í verki leiðtogahlutverk og samstöðu. Ísland er að hjálpa til við að skapa raunverulegar framfarir og árangur fyrir stúlkur og sendir um leið skýr skilaboð um hvað það er sem skiptir mestu máli.“

Ársskýrslu UNICEF‘s Global Gender Equality Thematic Fund fyrir árið 2024 má lesa í heild sinni hér.

Fleiri
fréttir

13. ágúst 2025

Íslandi hrósað í hástert fyrir stuðning við Jafnréttissjóð UNICEF
Lesa meira

06. ágúst 2025

Átakanlegar sögur frá Súdan: „Börn orðin lítið nema skinn og bein“
Lesa meira

05. ágúst 2025

Hungur, sjúkdómar og ofbeldi ógna lífi barna í Súdan
Lesa meira
Fara í fréttasafn